Á sjúkrahús smitaður af sænsku

Júlíus Hafstein, síbrosandi í jafnaðarstuðinu þegar hann veiktist fyrir nokkru.

Síðustu tvær vikur hafa verið afleitar. Á fimmtudag fyrir Verslunarmannahelgi tók sig upp gamalt sænsk með þeim afleiðingum að jafnaðarmennska helltist yfir mig og gat ég ekki tjáð mig nema á sænsku. 

Det var ikke bra.

Óskar bróðir fór með mig á heilsugæslustöðina á Blönduósi. Læknirinn þar gaf mér einhverjar verkjatöflur og sagði mér að leggjast fyrir. En þær gerðu lítið gagn. Ég fann jafnaðarmennskuna dreifast út í fingurna og daginn eftir var ég farinn að brosa út í eitt og hjálpa til.

Guði sé oss næstur.

Ég hafði enga lyst á bjór um kvöldið og þessvegna ákvað Óskar að keyra með mig í bæinn og láta sérfræðing kíkja á mig. Sá lagði mig inn á LSH. Þar var ég strippaður, færður í rúm og svæfður í viku. 

Þetta voru ömurlegir dagar. Þegar ég vaknaði á þriðjudag hafði ég lítinn mátt. Orkan var hins vegar einkennilega dreifð um líkamann, jöfnuð í fingrum og fótum og ég gat ekki einbeitt mér að neinu sérstöku. 

Óskar, sem hafði fengið inni hjá "vini" sínum, kom í heimsókn á hverjum degi og las fyrir mig úr ljóðabókum Sigurðar Pálssonar, Ljóðvegasalt og Ljóðlínudans, sem var alveg skelfilegt. En ég gat ekki með nokkru móti maldað í móinn og sagði bara: Det er bra.....

Svo brast ég í grát. Óskar þerraði tárin, sem var fallega gert.

Núna er ég semsagt kominn aftur heim á Blönduós og er í veikindaleyfi fram í næstu viku. Sem er ágætt þannig séð. Hef samt lítið gert nema legið fyrir og lesið í bókum Sjöwall og Wahlö og Lisu Marklund á frummálinu.

Veit ekki hvernig mér tekst að skilja þær en plottið er yfirleitt ágætt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fannst nokkurn tímann sjúkrabíllinn sem hvarf?

heh (IP-tala skráð) 16.8.2006 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband