21.9.2006 | 10:13
Skáld í húsi skáldsins?
Fór á Akureyri á dögunum. Þrammaði upp að Sigurhæðum og skoðaði í hvern kima í húsi Matthíasar Jochumssonar, þjóðskáldsins sem samdi texta við lag sem allir telja sig kunna að hluta en enginn man í raun - þjóðsönginn. Í gestabókinni rak ég hins vegar augun í all sérstætt nafn: Kazuo Ishiguro.
Reyndar var rithöndin óskýr en K-ið skýrt á undan stuttu fornafni og Ishiguro jafn heiðskýrt og himininn. Á eftir stóð: London, UK.
Spurði umsjónarmann hvort þetta væri rithöfundurinn sem færir heimsbyggðinni bækur sem gerast á hraða snigilsins.
Ekki vissi hún það að öðru leyti en því að hann var asískur í útliti og tók sér ofboðslega langan tíma í að skoða húsið.
Skrýtið. Hafði ekki heyrt af ferðum höfundarins á Fróni.
Engin bókmenntahátið í gangi og ekki neitt.
Hægi höfundurinn bara eins og Kundera, sem blæs ekki í nokkurn lúður þegar hann stígur út úr Leifsstöð.
Ef rétt reynist þá velti ég því fyrir mér hvort Matthías gamli birtist bráðum í bók eftir Ishiguro og fái loks löngu verðskuldað pláss í evrópskri bókmenntasögu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.