Færsluflokkur: Bloggar

Skrýtnir Staksteinar - verða enn betri með tónlistarábreiðu

Undarlegir Staksteinar í Morgunblaðinu í dag.  Heyrði útundan mér að Styrmir einn hefði leyfi til slíkra skrifa.  Skrýtið samt, fannst mér. Enda minna steinarnir á ljóð eftir Matthías Johannessen.

Hér er brot:

„Þeir gengu í þágu kommúnismans, sem hrundi með Berlínarmúrnum / Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar / Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun / Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlína 17. júní 1953...“

Held það væri flott að fá Þór Eldon, fyrrum gítarleikara Sykurmolanna, til að setja smá ábreiðu yfir þetta. Þá myndi heildin líta út líkt og Dauðaskammtur, ljóð Dags Sigurðarsonar, sem Eldon samdi tónlist við.   

Nú hefur enn ekki virkað að setja hlekki inn á þessa blessuðu síðu og þessvegna verð ég að setja hann inn í heild sinni. Það verður að afrita slóðin, líma hana inn í nýjan glugga og þá fyrst er hægt að hlusta á dýrðina. Ímyndið ykkur svo hvernig Staksteinar geta orðið miklu betri:

https://www.smekkleysa.net/audio/full/Thor%20Eldon%20-%20Daudaskammtur.mp3

 


Bloggið í Blaðinu

Hrynji nú úr mér allar lýs úr höfði! Sem ég sat á klóinu á almenningnum í grunnskólanum á Blönduósi í kaffihléinu og blaðaði í Blaðinu lá við að ég fengi þvagrásarstíflu og harðlífi. Ástæðan var pínkulítil grein í sneplinu sem fjallaði um heimsókn mína á Akureyri og vapp um Sigurhæðir Matthíasar Jochumssonar.

Mikið var að einhver tók þetta upp á blaðsíðu 20 í laugardagshefti blaðsins.

Reyndar tókst viðkomandi að blanda mér saman við Óskar bróður, sem eru náttúrlega mistök. Ég er snillingur en Óskar bara Aðalsteinn. Ég er hins vegar sagnfræðingurinn en Skari er bara hinseginn. 

Nú er bara að kanna hvort eitthvert sannleikskorn er í þessu og tékka á því hvort K.I. var raunverulega hér og hvort séra Matti Joch birtist í bók hans á næstu árum.

Helvíti að vera ekki með myndavél á sér til að ná mynd af gestabókinni. 


Fáðu það með Guði

Ef eitthvað er að marka þessa grein er stuð að vera miðaldra kristinn einstaklingur. Ég bíð spenntur og gæti vel hugsað mér að stofna söfnuð í kirkjunni á Blönduósi sem hefur það að markmiði að efla kynlífið.

Sé fyrir mér slóganið: Fáðu það með Guði!

Hér er slóðin: .

Skítleg afkoma

Áhættusjóðurinn, sem ég setti á laggirnar og einbeitir sér að veðmálum á leiki í enska boltanum á Lengjunni, hefur skilað ömurlegri afkomu. Upphaflegt markmið sjóðsins var að skila ævintýralegum hagnaði, hundraðföldum á mánuði í besta falli. Í staðinn hefur hefur hann tapað 400 krónum.

Fjögurhundruðakall í vaskinn þar.

Það er ekki upp á manni typpið, sérstaklega þegar haft er í huga að hagnaðurinn átti að vera hlutfallslega margfaldur miðað við það sem Björgólfur Thor og Warren Buffett sjá nokkru sinni.

Maður hefur aldeilis pissað í skóinn sinn.

Startkapítal sjóðsins, sem var 1.000 krónur - eittþúsundkrónur!, er nú hrunið niður í skitinn 600 kall. Þetta jafngildir 40 prósenta tapi, sem verður að teljast skítlegt tap.

En betur má ef duga skal. Ég dey ekki ráðalaus. Hundrað krónur leggjast á leiki í Lengjunni. Komist ég ekki yfir startkapítalið skal ég hundur heita! 


Skáld í húsi skáldsins?

Sigurhæðir - hús þjóðskáldsins.

Fór á Akureyri á dögunum. Þrammaði upp að Sigurhæðum og skoðaði í hvern kima í húsi Matthíasar Jochumssonar, þjóðskáldsins sem samdi texta við lag sem allir telja sig kunna að hluta en enginn man í raun - þjóðsönginn. Í gestabókinni rak ég hins vegar augun í all sérstætt nafn: Kazuo Ishiguro. 

Reyndar var rithöndin óskýr en K-ið skýrt á undan stuttu fornafni og Ishiguro jafn heiðskýrt og himininn. Á eftir stóð: „London, UK“.

Spurði umsjónarmann hvort þetta væri rithöfundurinn sem færir heimsbyggðinni bækur sem gerast á hraða snigilsins.

Ekki vissi hún það að öðru leyti en því að hann var asískur í útliti og tók sér ofboðslega langan tíma í að skoða húsið.

Skrýtið. Hafði ekki heyrt af ferðum höfundarins á Fróni.

Engin bókmenntahátið í gangi og ekki neitt.

Hægi höfundurinn bara eins og Kundera, sem blæs ekki í nokkurn lúður þegar hann stígur út úr Leifsstöð.

Ef rétt reynist þá velti ég því fyrir mér hvort Matthías gamli birtist bráðum í bók eftir Ishiguro og fái loks löngu verðskuldað pláss í evrópskri bókmenntasögu. 


Eitthvað sloj

Assgoti sem maður stendur sig illa í blogginu. Er ekki frá því að maður sé eitthvað sloj eftir andvökunætur vegna Rockstar: Supernova - sem neyðist víst til að skipta um nafn.

Meira síðar.

Spennan magnast.  


Jesús í markinu gegn kónum djöfsa

Jesús sýnir varnartakta

Jæja. Þá erum við bræður komnir úr ferðalagi. Greini frá því síðar. Þangað til geta einhverjir skemmt sér yfir þessari litlu mynd af Jesú að verja markið í landsleik Himnaríkis og Helvítis.

Úrslit liggja ekki fyrir en búist er við að þau birtist upp úr Dómsdegi. 


Ég þakka líka Guði fyrir Garner

Beib í búningi

Skiljanlegt að jafn vondur leikari og Ben Affleck þakki Guði almáttugum fyrir að hafa kynnst starfssystur sinni Jennifer Garner. En þótt Affleck sé slæmur leikari og ekkert sérlega fríður sýnum sýnir frúin lítið skárri leik í sjónvarpsþáttunum Alias og þeim fáu kvikmyndum sem hún hefur leikið í. Hún hefur hins vegar vinninginn á útlitinu.

Um það efast enginn, að ég held. Nema Óskar bróðir.

En hæfileikar hennar skipta mig svosem öngvu máli.

Ég væri vondur leikari sem fyrir slysni hefði lent í hverjum kvikmyndasmellinum á fætur öðrum hefði ég sjálfur þakkað Guði fyrir að hitta Garner.

Bið Guð samt á hverju fimmtudagskvöldi um Garner en Affleck lætur hana ekki af hendi.

Óskar bróðir biður líka til Guðs aðra hverja viku að hann fái Affleck. En Garner lætur hann ekki af hendi, sem mér finnst undarlegt. 


mbl.is Affleck þakkar Guði fyrir Garner
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnsta rós í heimi

Þótt Indverjar þykist kunna að rækta minnstu rós í heimi og þykist vera meistarar á mörgum sviðum þá hljóta þeir að standa framarlega í ýkjum. Minnsta rós í heimi hefur ekki verið ræktuð á Indlandi heldur á Blönduósi. 

Við Óskar bróðir höfum verið með litla rós í pössun fyrir frænku okkar og þykjumst hafa ræktað minnsta rósaafbrigði sem sögur fara af.

Hér til hliðar er mynd af rósinni á borðstofuskenknum okkar heima í stofu.

Eins og sjá má er hún svo agnarsmá að augað á í mesta basli með að greina hana.  


mbl.is Minnsta rós í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn tapar áhættusjóðurinn

Það er engu líkara en að fótboltaliðin í ensku úrvalsdeildinni hafi ráðið alla afrísku blökkumennina, sem ekki náðu að skora mark í HM í knattspyrnu í Þýskalandi í sumar, til starfa. Eitthvað er það því allir leikirnir sem áhættusjóðurinn minn tippaði á í Lengjunni um helgina voru vitlausir. 

Afkoma sjóðsins hrakar því í hverri viku.

Áhættusjóðurinn spanderaði hundrað krónum - 100 krónum! - á fjóra leiki í ensku deildinni í Lengjunni á laugardag. Hefðu þeir unnist hefði vinningsupphæðin numið 1.460 krónum en það hefði skilað sér í því að sjóðurinn hefði orðið 2.260 krónur. 

Niðurstaðan varð hins vegar sú að 200 krónur - tvöhundruð krónur - hafa tapast úr sjóðnum, sem átti að skila ótrúlegum hagnaði - frá því honum var ýtt úr vör. Nemur heildartapið skiljanlega 20 prósentum á hálfum mánuði, sem verður að teljast dapurlegt.

En tími áhættusjóðsins mun koma! sé gripið til örvæntingarfulls ákalls Jóhönnu Sigurðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, þegar hún var ekki kosin formaður Alþýðuflokks eða Alþýðubandalags á síðustu öld.

Hagnaður sjóðsins mun verða meiri en Björgólfur Thor og Warren Beatty hafa nokkru sinni séð! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband