Færsluflokkur: Bloggar
17.7.2006 | 13:19
Á reykvískri sólarströnd
Við Óskar bróðir gerðum okkur bæjarferð fyrir hálfum mánuði. Læstum húsinu á Blönduósi, ókum til höfuðborgarinnar í steikjandi hita og nutum sólar í Nauthólsvík.
Enda vart annað að gera þar sem einu beibin á ströndinni eru í besta falli þrettán en þroskaðar og karlpeningurinn yfir sextugu með brjóst niður á nafla og minna frekar á sólbrennda búrhveli en gaukana sem Óskar dúndraði á Sitges í Barcelonaferðinni í hitteðfyrra.
Það þarf vart að taka fram hvor okkar horfði á stelpurnar en ég óskaði þess að þær væru að minnsta kosti áratug eldri og jafnvel meira.
Við brunnum báðir, Óskar þó meira á rasskinnunum enda leggst hann alltaf í sólbað í þessum sömu ógeðslegu þvengsbuxum og hann keypti þegar hann var í kvikmyndatökunum í Þýskalandi fyrir nokkrum árum. Hann hefur húkt í þessum brókum hvenær sem tækifæri gefst og neitar að verða við ítrekaðri bón minni um að fá sér eitthvað nýrra - svo ég tali ekki um smekklegra.
Skrýtin samt þessi ylströnd í Nauthólsvík. Þegar maður liggur á sólinni og lokar augunum þá líður manni í besta falli eins og í útlöndum. En þegar augun opnast á ný blasa iðnaðarhúsin í Kópavogi við svo manni langar mest til að gráta. En í besta falli fer maður heim.
Án þess að ég viti það þá veit ég ekki hvar iðnaðarhúsnæði er að finna beint á móti strönd í nokkru landi.
En Óskar vildi ekki fara aftur heim á Blönduós undir eins. Ég fór aftur í larfana og tók nokkrar myndir í staðinn. Ég varð að taka myndir af einhverju. Ekki gat ég tekið myndir af stelpunum. Nei. Það hefði verið beinlínis hættulegt, ef ekki bannað. Og ekki hafði ég nokkra löngun til að taka myndir af Óskari bróður. Nei. Í staðinn tók ég myndir af hnullungum í víkinni, steina sem minntu á Mars. Ekki svo að skilja að ég hafi farið þangað...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2006 | 15:41
Lemmy og kýlið
Ókei. Ég er mannlegur eins og Davíð Oddsson, Ólafur Ragnar og restin af krádinu. Ég er ekki búinn að skrifa um tónleikana með 9/11 og Ham í NASA.
Ég skal gera það núna. Byrja á 9/11 og skrifa um Ham einhvern tíma seinna.
Get allavega minnst á það að trommarinn er örugglega eini maðurinn í heimi sem hefur verið hræddur við mig fyrir utan tvær aukunarverðar kerlingar í næstu götu við skrattans frægasta markaðinn í Barcelona sem ég man ekki hvað heitir. Þær voru frá Taílandi.
Allavega. Ég veit ekkert um 9/11 fyrir utan að þeir hafa spilað þetta einu sinni til tvisvar á Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðinni á Ísafirði - sem er réttnefni um mig sem hef ekki farið út fyrir hringveginn frá Blönduósi síðan ég flutti þangað - og speaking of never - ég meina, þarna eru fjöll, hellingur af vatni og Gísli Súrsson!
Nema hvað. 9/11 byrjuðu vel. Eiginlega alltof vel. Byrjuðu eins og súpergrúppa sem var að uppgötvast að vesta. Mér leið líkt og ég hefði rekið nefið ofan í fjársjóð.
Þetta var svona fallegt móment þar sem maður fær eitthvað þar sem maður bjóst síst við því. Á NASA. Hélt þetta væri eitthvað retro aftanúrrassgati í afdal-band en komst svo að raun um að svo var ekki.
Allavega í fyrstu. Fyrstu lögin sem ég veit hvorki hvað heita né heyrði almennilega til að greina hvað fjölluðu um - fyrir utan melódíuna - voru afspyrnu flott. Nammi í eyrum tónlistarunnandans sem hatar Sálina hans Jóns míns og gæti ýtt Jónsa í Svörtum fötum fyrir björg.
Þetta hljómaði nýtt og ferskt. Eins og Lemmy í Motorhead í nýju holdi.
Þegar á leið fipaðist flugið. Rokkið fór af leið og lagði beint inn í kappann. Varð eftirlíking af Lemmy, og léleg í þokkabót, að mér fannst. Og rétt áður en bandið steig af sviði hafði 9/11 ekki komist með tærnar þar sem Lemmy hafði hælana. Þeir voru agnarsmáir Lemmy-ar, náðu rétt að fylla upp í kýlið á kinn hans, sem reyndar er ekkert smáræði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2006 | 21:05
Call me Pittsson, Snorri Brad Pittsson
Las í Blaðinu á mánudag, að mig minnir, viðtal við íslensku karaókístjörnuna Snorra sem ég man ekki hvað heitir meira-son. Brosandi hýr og kampakátur lýsti hann jómfrúrplötunni fyrir lesendum, lögunum, textunum og útliti sínu. Sjálfur sagðist hann vera sláandi líkur bandaríska hönkleikaranum Brad Pitt.
Altso.
Mér finnst Snorri eitthvaðson ekkert sérlega líkur Brad Pitt. Allavega ekki þeim Brad Pitt eins og testósterónkyntröllið lítur út í dag. Held að Snorri geti alveg grafið þau plön að krækja sér í eina íslenska einstæða þriggja barna Angelínu Joliedóttur. Enda á hann konu.
Nei, þegar ég sé Snorra eitthvaðson þá dettur mér alltaf í hug leikarinn Ewen Bremner þegar hann lék Spud í Trainspotting. Grannur, allt að því sjúklega mjór, renglulegur og með svo ræfilslega fætur að ég býst við að þeir brotni eins og tannstönglar undan líkamsþunganum, sem er ekki mikill fyrir.
Hann er gangandi beinagrind, myndi önnur amma mín segja um hann eins og hún sagði eittsinn um mig. Það er langt síðan hún sagði það, ár og aldir.
En dæmi hver sem vill.
Ekki ætla ég að setjast í dómarasætið.
Bloggar | Breytt 6.7.2006 kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.7.2006 | 01:31
Emeraldið hans Guðs
Hér er annað ský sem ég tók mynd af. Réttnefnið væri náttúrlega þetta lamaða: Svíf í skýjum nr. 2 eins og listmálarar kalla verkin sín þegar þeir hafa ekki hugmynd um hvað þau eiga að heita.
Jafnast á við milljónustu og eitthvað mynd Píkassós, einsog Mogginn myndi kalla hann ef hann héldi reglu sinni um íslenska þýðingu erlendra nafna til streitu, án titils númer eittþúsund þrjúhundruð fjörutíu og sjö.
Mér finnst eins og íslenskum málurum detti ósköp sjaldan í hug einhver skýr og gegnsæ nöfn á verk sín. Enda hef ég gengið í gegnum nokkrar sýningar þar sem myndirnar hétu: "Án titils" allt frá fyrstu mynd vinstra megin dyrakarms að sýningunni til hægri hliðar hans tuttugu og sjö myndum seinna.
Hversu fatlað væri það hjá annars ágætum málara?
Eða snillingi, ef því er að skipta.
Allavegna, eins og sumir segja. Þetta er mynd af klósetti sem skýin mynda þegar Guði er mál. Þegar skýin mynda ekkert klósett er Guði semsagt ekki mál eða hann heldur í sér og blótar himnasettinu til ösku, helvítis og til baka.
Ég er semsagt enn með skýjafetís. Ætli það séu til einhverjar pillur við því?
Nema maður skreppi með lággjaldaflugfélagi út eins og Óskar bróðir og láti taka sig í bakaríð. Í hans tilfelli var hann tekinn í bakaríinu. Í hvaða bakaríi nákvæmlega veit ég ekki og langar ekki að vita hvernig hann var...
Bah! Þetta er allt sami kleinuhringurinn fyrir mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2006 | 20:51
Vertu ber við bak bróður...
Las um það í ofsalega virtu bresku dagblaði á dögunum að kanadískur sálfræðingur hefði komist að þeirri niðurstöðu í viðamikilli rannsókn að mæður sem eiga marga drengi eigi á hættu á því að einn af þeirra yngstu sonum verði samkynhneigður. Semsagt. Það eru meiri líkur á því að drengur sem á marga eldri bræður verði samkynhneigður en ef hann á yngri bræður eða systur einhversstaðar í systkinaröðinni.
Kenningin gengur í grófu máli út á að efnaskipti verða í legi móður eftir því sem sonum fjölgar. Það hefur áhrif á heilastarfsemi drengjanna á fósturstigi og þegar síðasti sonurinn rennur út úr leginu á hann á hættu að verða tekinn í rass þegar hann vex úr grasi.
Semsagt. Fyrsti sonurinn er fullur af testósteróni, vöðvamikill, loðinn og öflugur. Sá næsti er oggulítið minni, en stæltur og karlmannlegur. Þegar kemur að fjórða eða fimmta syni aukast líkurnar á að hann verði hómó og missi blóð í klofið þegar hann horfir á eldri bræður sína.
Nema hann vilji þá svarta, stælta og skollótta enda gaf ég mér auðvitað að bræðurnir væru hvítir eins og ég.
Ef þessi kenning gengur upp þá hljóta íslensku stórfjölskyldurnar að hafa verið rjúkandi samkynhneigðar með öll sín 10 til 15 börn eða svona margir inni í kústaskápnum.
Nútíma Íslendingar eignast nefnilega ekki lengur svo mörg börn að þau eigi á hættu að eignast THE HOMO BOY!
Nema.... Jú nema aumingjarnir í Krossinum sem segja smokkinn verkfæri djöfulsins. Þau ættu að prófa að setja hann á hausinn og hlæja. Guð býr til brosin en Skrattinn tólin og tækið til að draga brosið fram.
Allavega. Krossarnarnir og Betelbúar - og eflaust einhverjir fleiri - eignast fullt og krökkum af því þau nota ekki smokkinn. Notkunarleysi á þessu verkfæri djöfulsins hefur semsagt dæmt þau til að búa til "THE HOMO BOY!".
Sorglegt en skemmtilegt.
Því meðlimir Krossins eiga meira á hættu en trúleysingjar að fjölga hommum.
En einkennilegt samt að hugsa til þessa. Við erum tveir bræðurnir, ég sá eldri og Óskar sá yngri. Allavega. Ég hlýt að hafa tekið allt testesterónið á fósturstigi og tæmt það áður en Óskar kom í legið.
Enda er fimmtíuprósent samkynhneigð hjá okkur bræðrunum og mig hryllir við tilhugsunina að Óskar horfi á mig með eitthvað kynferðislegt í huga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2006 | 00:04
Svíf í skýjum
Er kominn með fetís fyrir skýjum. Það er nú eitthvað annað og miklu ofar en fetísinn fyrir laufum trjánna sem ég hafði fyrir nokkru og hlýtur að vera vísbending um að ég er ekki jafn helvíti jarðbundinn og græni liturinn benti til.
Sem er ágætt, enda vísaði græni liturinn í fátt annað en merki Framsóknarflokksins, það hundómerkilega ... Ég neyðist sveimérþá til að draga djúpt andann og slaka á tauginni. Verða rólegur og finna spennuna leka niður eftir astralboddíinu og útum iljarnar.
Helvítis Framsóknarmenn!
Það er eitthvað við skýin. Kann ekki almennilega skil á því enda er tilfinningin úr lausu lofti gripin, eins og gefur að skilja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2006 | 23:11
Endurkoma er sjaldan kúl
Er kominn með miða á tónleikana með Ham. Loksins. Finnst samt hálf hallærislegt að þeir hafi ekki getað setið á sínum krumpaða botni og komið ekki saman aftur eftir að þeir hættu eftir giggið í Tunglinum árið 1993 eða 4. Ég sá þá ekki þar og ekki heldur þegar blásið var oní þá munn við munn til að hita upp fyrir Rammstein.
Eins og mér hefur alltaf fundist hún skemmtilegt enda hélt ég frá fyrstu tíð að bandið væri grín og runnið undan rifjum Sigurjóns Kjartanssonar.
En annað hefur komið á daginn.
Reyndar finnst mér Hamararnir hafa gengisfallið svolítið með endurkomunni. Þeir falla þeir í flokk með Hljómum, Steina spil og Lúdó, sem sögðu bönd aldrei hætta almennilegt heldur taki sér hlé, fari í pásu. Minnir að Gunni Óla hafi verið á svipuðum nótum þegar Skítamórall fór í frí. Þetta er langtífrá töff. Eiginlega komið langleiðina út á Hallærisplan.
Ég veit samt ekki hvort Ham hefði verið nær að halda sig í gröfinni. Kúlið er enn til staðar, bara svolítið eldra og þróaðra en á fyrstu árum bandsins. Ætli það sé ekki dópið, sem er horfið úr innviðum bandsins - eða það held ég - sem gerir það að verkum að tónlistin hljómar betur. Ég bara veit það ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2006 | 12:16
Tilefni til klikkunar
Þegar ég rak augun í orðatiltækið að æra óstöðugan á blaðsíðum 32 og 34 í Blaðinu í gær lá við að ég klikkaðist. Hætti að fletta blaðinu Blaðinu og reif í hár mér.
Gat varla staðið í fæturna og átti í mesta basli með andardráttinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2006 | 22:38
Takk fyrir, en ég svík mig sjálfur
Ég hef svikið lit. Minn eigin lit. Eiginlega sjálfan mig.
Er horfinn frá gamla blogginu sem ég hamraði saman í endalausar aldaraðir og kominn hingað.
Adios gamla blogg, ég þarfnast þín ekki lengur.
Allir þínir undirflokkar og aukasjálf, auglýsingaborðar og ....nei, ég læt ekki bjóða mér þetta lengur og stúta þér.
Skýt þig af færi.
Þyrfti að læra hvernig eigi að gera tenglalista svo ég geti sett tengill á gamla meistaraverkið. Svona eins og um náinn ættingja sé að ræða. Dauðann karl. Aska bloggsins er í krukku en innihaldið heldur áfram að lifa.
Í minningu HTML.
Ég mun ætíð minnast þín.
Amen.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2006 | 16:04
Grænn fetís
Er með fetís fyrir grænu. Er samt eins langt frá því að vera Framsóknarmaður og hægt verður að komast. Gæti verið einn af þessum handan-við-jaðarinn Framsóknarmaður. Flokkurinn gæti reynt að heilla okkur sem stöndum handan við fylgið til lags við sig.
En veit ekki með það enda hef ég ekki áhuga.
Græni liturinn táknar víst að ég jarðbundinn. Óguð! Held reyndar að græni liturinn minni mig bara á grænu bolina sem ég átti í den. Horfi þessvegna á laufin á trjánum og hverf aftur til æskudaga.
En guði sé lof að ég skeit ekki buxurnar þar sem ég stóð við Miklubraut í gær og horfði á trén... Það hefði orðið klúður.
Nema mig langi í frí. Það væri flott að horfa tré í útlöndum og hverfa aftur til bernskunnar í huganum.
Það væri stuð að gera á sig í Amsterdam og grenja. Kalla á mömmu, taka svo upp gemsann, hringja í hana og segja henni hvað kom fyrir. Veit ekki...
Er þessi græna gróðurfylling útlönd? Nei. Þetta rjóðrið sem blasir við ökumönnum af Miklubraut þegar þeir keyra fram hjá Kringlunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)